Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag eftir að seðlabankastjóri Evrópu, Jean-Claude Trichet gaf til kynna að bankinn myndi hækka stýrivexti í júlí ef ekki næðist að koma böndum á verðbólguna á evrusvæðinu að því er fréttavefur Reuters greinir frá.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Sem dæmi má nefna að franski bankinn Credit Agricole lækkaði um 8% eftir að greint var frá því að nýtt hlutafjárútboð bankans myndi fara fram á mun lægra gengi en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Þó lækkuðu ekki allir bankar. Royal Bank of Scotland hækkaði um 3,8% eftir að greiningadeild Citigroup mælti með kaupum í bankanum og UBS bankinn í Sviss hækkaði um 4,2%.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,2% í dag og hefur ekki verið lægri frá því um miðjan apríl.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,4% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,7%. Þá hækkaði AEX vísitalan í Amsterdam um 0,8% í dag.

Í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,3% og í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,2%.

Lokað var í Kaupmannahöfn í dag en í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,6% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,2%.