Evrópuþingið kaus í gær um lagabreytingu Evrópusambandsins sem ætlað var að skera upp herör gegn sjóræningjastarfsemi á internetinu. Frumvarpinu var hafnað með litlum mun.

Samkvæmt frétt BBC um málið sagði talskona Evrópuþingsins eftir kosninguna að þingmenn vilji gæta annars vegar hagsmuna höfundarréttarhafa og hins vegar hagsmuna þeirra sem nota internetið, og finna jafnvægi þar á milli.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að fylgst yrði með netnotkun manna og lokað á nettengingu þeirra sem gerðust sekir um sjóræningjastarfsemi, sem felst í því að deila höfundarréttarvörðu efni gegnum netið í leyfisleysi.

Evrópuþingið taldi það vera of langt gengið að taka internettenginguna af fólki vegna þess að það deili höfundarréttarvörðu efni, og benti á að gæta þurfi meðalhófs við þessa löggjöf eins og aðra.

Kosningin hefur þó engin bindandi áhrif í þeim skilningi að aðildarríkjum Evrópusambandsins er frjálst að lögleiða sínar eigin reglur um sjóræningjastarfsemi. Ríkisstjórn Frakklands tilkynnti til að mynda í nóvember í fyrra um áætlun sína sem felst í því að innleiða lög sem gera netfyrirtæki að varðhundum gegn sjóræningjastarfsemi. Upplýsingum verður safnað um einstaklinga sem stöðugt deila tónlist og kvikmyndum gegnum netið, stjórnvöld fá þær upplýsingar og senda út aðvörun til viðkomandi. Breytist netnotkun hans ekki í kjölfarið verður netaðgangur hans tekinn af honum.