Í vikunni samþykkti Evrópuþingið að leggja skatt á flugvélabensín og að sett verði þak á leyfilegt magn útblásturs frá flugvélum í því augnamiði að draga úr mengun.

Ákvörðunin er ekki bindandi en gæti haft áhrif á reglur sem settar verða af Evrópusambandinu. Töluverður þrýstingur hefur verið á flugfélög að undanförnu að draga úr útblæstri enda eykst mengun vegna flugsamganga hratt.

Aðgerðirnar gætu haft í för með sér að flugfélög þurfi að kaupa sérstök leyfi fari þau fram úr fyrirfram ákveðnum kvóta sem þau hafa fengið úthlutað. Slíkt gæti haft í för með sér hækkanir á fargjöldum á komandi árum.

"Flugvélaeldsneyti er stór kostnaðarliður í rekstri flugfélaga og flugvélaframleiðendur og rekstraraðilar hafa lagt mikið á sig og hafa náð gríðarlegum árangri í að draga úr eldsneytiseyðslu og minnka mengun af völdum flugvéla, eða 70% á 30 árum," segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair.

"Hvatinn til að gera vel og góður árangur er því svo sannarlega til staðar án sérstakrar skattlagningar. Stjórnvöld alls staðar í heiminum leggja mikla áherslu á góðar og æ betri flugsamgöngur með farþega og fragt og allt bendir til þess að veruleg aukning verði í almennu farþegaflugi og fraktflugi á næstu árum, ekki síst í Asíu."

Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri Iceland Express segir að hér gildi það sama og með aðra skatta, álögur og gjöld sem lögð séu á flugfélög, að aðgerðir sem þessar muni aðeins verða til þess að hækka verð farmiða til neytenda.

"Þessar aðgerðir munu, ef af verður, koma mest niður á lággjaldaflugfélögum þar sem við erum með lægri verð og minni álagningu en gömlu og hefðbundnari flugfélögin sem geta tekið þetta á sig vegna hærra miðaverðs, til dæmis á Saga Class miðum. Þau félög, til dæmis Icelandair, British Airways, SAS og fleiri, hafa verið að innheimta sérstakt eldsneytisgjald af farþegum sínum sem ætti að fara í þetta ef til kæmi."

Að sögn Birgis auka aðgerðirnar líka pressu á að menn noti nýrri og hagkvæmari flugvélar. "Við erum til dæmis með yngstu vélarnar sem eru í áætlunarflugi til og frá Íslandi þannig að þær eru bæði hagkvæmar í rekstri og uppfylla alla umhverfisstaðla. Í stórum dráttum á ég ekki von á að þetta muni valda okkur vandræðum á næstunni," segir Birgir.