Leiðtogar evruríkjanna samþykktu áætlun um björgun evrópskra banka á fundi sínum í París um helgina. Þeir lýstu því yfir að engum stórum fjármálastofnunum verði leyft að hrynja.

Evrópuríkin hétu því að ábyrgjast millibankalán til ársloka 2009 og ætla að leggja fjármagn inn í bankana með kaupum á nýju hlutafé í þeim.

Fundurinn var milli evruríkjanna, en Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, mætti á hluta fundarins.

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, kynnti áætlun Evrópuríkjanna en hann sagði að hún myndi tryggja fjármálafyrirtækjum það fjármagn sem þau þyrftu til að lifa af. Hann vildi hins vegar ekki segja til um hvað aðgerðirnar myndu kosta.

BBC greindi frá.