Evrópusambandið samþykkti á föstudag að senda um 1800 manns til Kosovo. Þar á meðal verða lögreglumenn, dómarar, lögfræðingar og tollverðir. Þetta er liður í því að veita Kosovo aðstoð en talið er líklegt að Kosovo muni lýsa yfir sjálfstæði á næstu misserum, en búist er við sjálfstæðisyfirlýsingu þeirra í febrúar.

Þessi aðgerð verður að öllum líkindum sú stærsta sem Evrópusambandið hefur lagt út í með þessum hætti. Financial Times greindi frá þessu í gær og segir að Evrópusambandið vilji nú bæta upp fyrir þau mistök að hafa ekki gripið inn í aðstæður fyrr þegar stríð geisaði á Balkanskaga á árunum 1991 - 1995.

„Evrópusambandið mun ekki gleyma ábyrgðarhlutverki sínu á þessu svæði, við munum láta verkin tala," sagði José Sócrates, forsætisráðherra Portúgals en Portúgal situr nú í forsæti Evrópuráðsins.

Yfirvöld í Serbíu hafa þegar lýst því yfir að allar aðgerðir Evrópusambandsins á svæðinu séu ólöglegar og kalla eftir því að Öryggisráð SÞ álykti um málið. Það er þó talið ólíklegt að svo verði því Rússar hafa þegar sagt að þeir muni beita neitunarvaldi gegn ályktunum sem styðja sjálfstæði Kosovo. Kosovo er nú hérað í Serbíu og Rússar hafa stutt andstöðu Serbíu við sjálfstæði Kosovo.

Flest ríki Evrópusambandsins hafa þegar lýst því yfir að þau muni styðja sjálfstæði Kosovo. Þó er ekki von á sameiginlegri yfirlýsingu Evrópusambandsins heldur mun hvert ríki fyrir sig þurfa að ákveða hvort það styður sjálfstæði héraðsins. Fjögur stærstu löndin, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Bretland eru öll talin líkleg til að styðja sjálfstæði Kosovo segir í frétt frá Financial Times.