Ný könnun meðal stjórnenda fyrirtækja á evrusvæðinu bendir til að efnahagur ríkjanna sé að ná sér á strik. Könnunin bendir þó til þess að evruríki séu að vaxa í mismunandi áttir.

Af ríkjunum 17 er mest bjartsýni meðal stjórnenda í Þýskalandi og Frakklandi á meðan erfiðleikarnir mælast mestir á Írlandi og Grikklandi. Í frétt BBC segir að grannt sé fylgst með vísitölunni sem könnunin mælir. Gildi hennar mældist í apríl 57,8 stig og hækkaði frá 57,6 stigum í mars. Öll gildi yfir 50 benda til þenslu í hagkerfinu.

Vísitalan hefur einu sinni áður mælst svo há síðan í júní 2007. Aukinn vöxtur í þjónustugeira Frakklands og framleiðslugeira Þýskalands leiddu til hækkunar á vísitölunni. Aðalhagfræðingur hjá Markit, sem framkvæmir könnunina, segir að hagvöxtur á evrusvæðinu haldi áfram á öðrum ársfjórðungi. Hann bætir þó við að uppgangurinn sé of háður velgengni Frakka og Þjóðverja.