Meðal þeirra atriða sem eru til skoðunar varðandi hagræðingu í rekstri eignarhaldsfélagsins Exista er að færa starfsemi sem nú er hjá móðurfélaginu út til dótturfélaganna. Þannig telja menn unnt að minnka rekstrarkostnað Exista enn frekar eins og kröfuhafar hafa óskað.

Í janúar síðastliðnum var starfsmönnum Exista fækkað og eru þeir núna 15 talsins að sögn Sigurðar Nordal talsmanns Exista. Sigurður sagði að ekki hefðu orðið verulegar breytingar á starfsliðinu síðan í janúar. Þegar mest var voru um 30 starfsmenn hjá Exista og eru þá meðtaldir þeir starfsmenn sem voru í London.

Það er verið að ræða hvernig starfsemi Exista verður háttað í framtíðinni og hve mikið umfang verður hjá móðurfélaginu. Undanfarin ár hefur móðurfélagið tekin inn til sín töluvert af starfsemi úr dótturfélögunum. Má þar nefna eigna- og áhættustýringu fyrir tryggingafélögin og fjármögnun fyrir Lýsingu. Að sögn Sigurðar er alltaf til endurskoðunar hvernig þessari starfsemi verður háttað í framtíðinni.

Það hefur verið hlutverk Exista að reka áhættustýringu á samstæðugrunni fyrir dótturfélögin. Sama á við um fjármögnun. Nú þegar verið er að meta greiðsluhæfi félagsins eru þessir hlutir komnir til skoðunar.

Viðræður við erlenda kröfuhafa Exista hófust í október 2008, strax í kjölfar hruns íslenska bankakerfisins. Fengnir voru ráðgjafar til að fara yfir stöðu Exista og önnuðust KPMG í London og Reykjavík, Clifford Chance og BBA Legal ráðgjöf fyrir lánveitendur samkvæmt sambankaláni 27 alþjóðlegra banka en Logos lögmannsþjónusta og Lovells veittu Exista ráðgjöf. Exista starfar á sviði vátrygginga, eignaleigu og fjárfestinga. Exista starfrækir VÍS (Vátryggingafélag Íslands hf.), Lífís (Líftryggingafélag Íslands hf.) og eignaleigufyrirtækið Lýsingu hf. Exista er jafnframt eigandi Skipta hf. sem er móðurfélag Símans og fleiri fyrirtækja á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Þá á Exista meirihluta í Öryggismiðstöðinni.