Exista hefur keypt í Bakkavör Group fyrir um 4,5 milljarða króna, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Um er að ræða 87.883.488 hluti á genginu 51 krónur á hlut.

"Þessi kaup endurspegla trú Exista á Bakkavör og framtíðarmöguleikum félagsins. Hlutfallsleg eign Exista í Bakkavör hefur minnkað í tengslum við aukningu hlutafjár á undanförnum misserum og teljum við nú vera rétta tímann til þess að auka hlut okkar í félaginu á ný," sagði Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, í samtali við Viðskiptablaðið.

Eftir viðskiptin eiga fjárhagslegra tengdir aðilar 662.250.447 hluti, sem er um 33,8 milljarðar að markaðsvirði.
Samhliða því flytjast áðurnefndir hlutir Traustfangs í Bakkavör Group til Exista B.V., þ.e. 1.000.000 hlutir, auk 10.416.667 hluta samkvæmt framvirkum samningum.

Exista er fruminnherji í Bakkavör Group í krafti eignaraðildar Exista B.V. Exista B.V. er í 100% eigu Exista en í stjórn Exista sitja meðal annars Lýður Guðmundsson og Ágúst Guðmundsson sem stöðu sinnar vegna eru fruminnherjar í Bakkavör Group.

Forstjórar Exista , Erlendur Hjaltason og Sigurður Valtýsson, eru jafnframt fruminnherjar í Bakkavör Group. Exista B.V. var fyrir ofangreind viðskipti eigandi 522.608.287 hluta í Bakkavör Group.

Vátryggingafélag Íslands á 32.625.824 hluti í Bakkavör Group, Líftryggingafélag Íslands á 3.094.176 hluti, Vörður Íslandstrygging á 327.900 hluti og Traustfang á 1.000.000 hluti í Bakkavör Group, auk 10.416.667 hluta samkvæmt framvirkum samningum.

Þar sem Exista er eigandi 100% hlutafjár í VÍS eignarhaldsfélagi sem á 100% hlutafjár í Vátryggingafélagi Íslands, 100% í Líftryggingafélag Íslands, 56% í Verði Íslandstryggingu og 100% í Traustfangi er Exista óbeint eigandi hluta þessara félaga í Bakkavör Group.

Um er að ræða 47.464.567 hluti í Bakkavör Group þar af 10.416.667 hluti vegna framvirkra samninga. Hlutir í eigu fruminnherja annarra en ofantaldra félaga voru samtals 4.294.105, þar af 3.183.400 vegna framvirkra samninga.