*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 14. september 2020 11:18

Fallandi risi í tæknivæddum heimi

Áhersla ExxonMobil á jarðefniseldsneyti kemur sér ekki vel í miðjum faraldri, félagið áætlar að tapa milljarði dollara á þessu ári.

Ritstjórn
ExxonMobil var áður fyrr verðmætasta fyrirtæki heims en Apple hlítur þá nafnbót núna.
epa

Þegar hlutabréf bandaríska olíu- og gasfyrirtækisins ExxonMobil stóðu sem hæst var það verðmætasta félag í heimi. Nú um sjö árum seinna hafa hlutabréf félagsins lækkað um ríflega 60% og markaðsvirði félagsins er um 156 milljarðar dollara.

Tæknirisinn Apple er nú verðmætasta fyrirtæki heims og er markaðsvirði þess er um 1.900 milljarðar dollara, og því ríflega 12 sinnum verðmætara en Exxon. Auk Apple hefur markaðsvirði Amazon og Google rofið 1.000 milljarða dollara múrinn en hlutabréf þessara þriggja félaga hafa hækkað talsvert það sem af er ári.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mjög neikvæð áhrif á rekstur Exxon, enda eftirspurn af jarðefniseldsneyti hríðlækkað. Þrátt fyrir erfiðar horfur, meðal annars vegna faraldursins, hefur félagið ekki gripið til uppsagna eins og er og hyggst það halda óbreyttri arðgreiðslustefnu. Samkeppnisaðilar félagsins hafa sagt upp allt að 35 þúsund manns.

Exxon hefur tvöfaldað fjárfestingar sínar í jarðefniseldsneytum á meðan margir keppninautar þess líta almennt til orkuskipta. Félagið trúir því að fólksfjölgun muni knýja fram aukna eftirspurn af jarðefnaeldsneyti á næstu áratugum.

Félagið gerir ráð fyrir að tapa um milljarði dollara á þessu ári, jafngildi 136 milljarða króna. Þegar best lét, árið 2008, sló félagið hagnaðarmet sem nam þá 46 milljörðum dollara, jafnvirði 6.257 milljarða króna á verðlagi þess árs. Félagið var tekið úr vísitölu Dow Jones í síðasta mánuði eftir að hafa verið skráð síðan árið 1928. Exxon var skipt úr fyrir hugbúnaðarfyrirtækið Salesforce. Umfjöllun á vef WSJ.