Endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið Ernst & Young hefur ráðið fjárfestingabankana JPMorgan og Goldman Sachs til að kanna möguleikana á því að skipta fyrirtækinu upp. Annað hvort með því að skrá ráðgjafarþjónustu fyrirtækisins á markað eða selja hana. Þetta yrðu róttækustu breytingar sem eitt af fjórum stóru endurskoðunarfyrirtækjunum hefur lagt í síðastliðna tvo áratugi.

Samkvæmt frétt Financial Times myndi sala eða skráning félagsins mögulega leiða til gífurlegs ávinnings fyrir núverandi eigendur félagsins, líkt og gerðist þegar Goldman Sachs og Accenture voru skráð á markað í kringum aldamótin.

Á síðasta ári námu tekjur ráðgjafarþjónustu EY rúmlega 3 þúsund milljörðum íslenskra króna á meðan tekjur endurskoðunarþjónustu félagsins námu tæpum 2 þúsund milljörðum króna.

Aðskilnaðurinn gæti einnig stækkað viðskiptavinahóp ráðgjafarþjónustunnar sem getur við núverandi aðstæður ekki þjónustað viðskiptavini endurskoðunarhluta fyrirtækisins vegna mögulegra hagsmunaárekstra.