Metsala varð í netverslun á svokölluðum Svörtum föstudegi (Black Friday) í Bandaríkjunum fyrir helgi, en sala í verslunum dróst saman milli ára. Financial Times greinir frá .

Samkvæmt bráðabirgðagreiningu RetailNext dróst sala í búðum saman um milli 4 og 7%, og fjöldi viðskiptavina enn meira, um 5 til 9%, en sala á hvern viðskiptavin jókst um 3%. Salan hefur nú dregist saman á hverju ári að minnsta kosti síðustu 4 ár, samkvæmt niðurstöðum RetailNext.

Söluvelta í netverslun jókst hinsvegar gríðarlega. Samkvæmt Adobe Analytics nam hún 6,2 milljörðum Bandaríkjadala, um 767 milljörðum króna, og jókst um tæpan fjórðung milli ára.

Þá er sagt frá því að meðalafsláttur af leikföngum hafi numið 27%, og meðalafsláttur af sjónvörpum og tölvum 18%.

Stafrænn mánudagur (Cyber Monday), sem fer fram á morgun, er sagður stefna í að verða söluhæsti dagur í verslunarsögu Bandaríkjanna, en því er spáð að veltan verði um 7,8 milljarðar Bandaríkjadala, hátt í 1.000 milljarðar króna.

Tilboðstímabilið að lengjast
Hinsvegar er þróunin sögð vera sú að verslanir bíði síður eftir stóru dögunum tveimur, heldur bjóði afslætti sífellt fyrr. Þannig hafi verð í netverslunum nú í ár í fyrsta sinn verið jafn lág á Þakkargjörðarhátíðinni – sem er haldin hátíðleg fjórða fimmtudag októbermánaðar, daginn fyrir föstudaginn svarta – og þau voru á föstudeginum.

Þess má geta að fjölmargar íslenskar verslanir héldu hinn svarta föstudag hátíðlegan með tilboðum, en margar þeirra buðu tilboð alla vikuna í aðdraganda útsöludagsins mikla. Þá stendur einnig til að margar þeirra bjóði upp á tilboð í tilefni hins Stafræna mánudags á morgun.