Klettur er dótturfélag Íbúðalánasjóðs sem býður einstaklingum og fjölskyldum íbúðir til leigu. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir hins vegar að það sé ekki hluti af starfsemi Íbúðalánasjóðs að standa í leigurekstri. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi, segir starfsemi Kletts fela í sér ákveðna mismunun þar sem ríkissjóður hafi sett milljarða inn í Íbúðalánasjóð á fjárlögum til að greiða niður tap sjóðsins af yfirtökueignum. Sjóðurinn hafi sett eignir inn í Klett án veðskulda og þannig hafi félagið notið 100 prósent markaðsstuðnings ríkisins.

Eygló kveðst vera þeirrar skoðunar að selja eigi leigufélagið. „Leigufélagið var sett á laggirnar til að koma til móts við það ástand sem skapaðist á húsnæðismarkaði í kjölfar hrunsins. Þessi ráðstöfun var aldrei hugsuð til langs tíma,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.