Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest hefur samhliða hlutafjáraukningu stofnað sjálfstætt félag utan um fjárfestingar sínar í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Félagið heitir Eyrir sprotar slhf. Eyrir Invest er stærsti hluthafi Marels en á jafnframt hlut í ReMake Electric og Saga Medica auk smærri hluta í öðrum sprotafyrirtækjum. Þá átti félagið jafnframt um skeið um 4% hlut í norska hugbúnaðarfyrirtækinu Opera Software og stóra hluti bæði í stoðtækjafyrirtækinu Össuri og íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Calidris, sem sérhæfir sig í þróun á hugbúnaði fyrir flugfélög.

Eignahlutir Eyris Invest munu í framhaldinu færast inn í sprotasjóðinn og munu fjárfestingar í sprotafyrirtækjum framvegis verða í hans nafni.

Lán á hagstæðum kjörum

Á sama tíma og Eyrir Invest stofnar sjóðinn tilkynnti það sölu á 10% hlut eigin bréfa til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Kaupverð nemur rúmum 2,4 milljörðum króna auk þess sem stjórnendur félagsins sömdu við Arion banka um 2 milljarða króna lántöku. Til viðbótar hefur verið samið við skilanefnd Glitnis um framlengingu á 14 milljóna evra bankaláni.

Lán Arion banka er að því er segir í tilkynningu í upphafi í íslenskum krónum. Það er tryggt með veði í skráðum hlutabréfum og ber íslenska millibankavexti auk 2,5% vaxta að auki. Vextir greiðast á hálfs árs fresti og er höfuðstóll lánsins á gjalddaga í maí árið 2015. Eftir því sem næst verður komið þykja þetta nokkuð hagstæð vaxtakjör.

Lánið sem varð eftir hjá Glitni við fall bankans hljóðar upp á 14 milljónir evra. Það er líkt og hitt lánið tryggt með veði í skráðum hlutabréfum. Það ber evrópska millibankavexti auk 3,75% vaxta. Samið var um að gjalddagi höfuðstóls lánsins væri í desember 2013 í stað september 2012.