Eyþór Ívar Jónsson hefur hætt störfum sem forstjóri Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins eftir að hafa gengt starfinu í fimm ár. Lýsir hann þessum fimm árum sem maraþonspretthlaupi og að nú sé góður tímapunktur til að hætta. „Klak skilar hagnaði og það er búið að tryggja reksturinn til næstu tveggja ára, það eru stór og mikilvæg verkefni á dagskránni sem er búið að fjármagna. Klak mun eflast næstu misserin,“ segir í tilkynningu frá Eyþóri.

Hann segir að áhugavert sé að horfa yfir farinn veg og velta því fyrir sér hvort eitthvað hafi áunnist. „Það er í raun of snemmt að segja til um það en ég er ánægður með margt sem við höfum gert á þessum fimm árum. Þegar ég hef kynnt starfsemi Klaks fyrir fólki þá hefur það undantekningarlaust orðið gáttað yfir umfangi rekstrarins.“

Hann segir að fáir átti sig á að Klak hafi byggt upp eitt metnaðarfyllsta prógram fyrir frumkvöðla á Norðurlöndunum. „Viðskiptasmiðjan – Hraðbraut nýrra fyrirtækja er ekki einungis frumkvöðlanám heldur hraðbraut frumkvöðla og nýrra fyrirtækja. Við höfum rekið ellefu (tólf með Startup Reykjavík) þriggja mánaða hraðala eða hraðbrautir (e. Accelerators) frá 2008. Sem frumkvöðlanám þá hafa fleiri en 200 námskeið verið kennd í Viðskiptasmiðjunni, fleiri en 50 kennarar og hátt í 100 gestafyrirlesarar og mentorar hafa unnið með okkur. Vel á annað hundrað sprotafyrirtæki hafa tekið þátt. Við höfum líka verið leiðandi í frumkvöðlakennslu í háskólaumhverfinu og búið til um tíu námskeið fyrir háskólana, flesta þeirra á MBA og meistarastigi (áhættufjárfestingar, viðskiptaáætlanagerð o.s.frv.) en einnig á BS stigi, t.d. risa-bootcamp í stofnun fyrirtækja fyrir HR. Á annað þúsund nemenda háskóla á Íslandi hafa notið leiðsagnar okkar í frumkvöðlakennslu.“

Lesa má tilkynningu Eyþórs í heild sinni hér .