Dr. Eyþór Eyjólfsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Icelandic Japan, dótturfyrirtækis Icelandic Group. Hann tekur við starfinu af Jónasi Engilbertssyni sem mun flytja heim til Íslands og taka við starfi framkvæmdastjóra Innkaupa Icelandic Group. Breytingarnar taka gildi 1. ágúst næstkomandi, að því er segir í tilkynningu. Þar segir að með breytingunum sé ætlunin að styrkja starfsemi fyrirtækisins í Japan og auka samstarf dótturfyrirtækja Icelandic í innkaupum.

Eyþór Eyjólfsson hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm Iceland en fyrirtækið hefur verið að byggja upp fiskeldi sem notar lágvarma úr jarðhitavirkjunum á Reykjanesi til framleiðslu á senegalflúru til manneldis. Eyþór hefur um langt árabil haft margvísleg tengsl við Japan og Asíu. Hann tók þátt í uppbyggingu Coocon í Tokyo sem var selt til Stolt Seafarm 1996. Starfaði síðan m.a. sem framkvæmdastjóri Stolt Seafarm í Asíu með aðsetur í Japan sem var leiðandi í sölu á sjávarafurðum í Asíu.

Á árunum 2005-2007 var Eyþór framkvæmdastjóri og meðeigandi Salmar Japan og byggði upp sölu á lax og öðrum vörum fyrir það fyrirtæki i Japan en fluttist þá heim. Eyþór er með doktorsgráðu í japönskum málvísindum frá Ludwig Maximilans University í München og nam að auki við háskólana í Hiroshima og Moskvu. Eyþór var kjörræðismaður Íslands í Tokyo á árunum 1998-2009.

Jónas Engilbertsson.
Jónas Engilbertsson.

Jónas Engilbertsson hóf störf hjá Icelandic Group árið 1999, fyrst sem innkaupastjóri fyrirtækisins með aðsetur í Úganda í Afríku og síðar í Þýskalandi. Fyrir þremur árum flutti Jónas sig um set og hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Marinus og Icelandic Japan og Kína með aðsetur í Tokyo. Jónas er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.