Tónlistarfólk sem hýsir verk sín á tónstreymisforritinu sænska Spotify mun nú hafa aðgang að gögnum um aðdáendur sína.

Nýr þjónustuvalkostur Spotify er kallaður Spotify Fan Insights, eða Aðdáendainnsýn. Aðeins nokkrir handvaldir listamenn munu geta nýtt sér hana til að byrja með.

Sérstök valmynd mun mata tónlistarfólkið eða umboðsmenn þeirra á upplýsingum og tölfræði um hvar hlustendur þeirra eru flestir, og hvar tónlist þeirra er sem vinsælust.

Þá munu upplýsingarnar vonandi geta hjálpað tónlistarfólki að skipuleggja tónleikaferðalög, með vinsældir sínar á hverjum stað fyrir sig til hliðsjónar.

Spotify er stærsta tónstreymisþjónusta heims, en 20 milljón manns eru borgandi kúnnar meðan einhverjar 55 milljónir hlusta fríkeypis á tónlist þaðan.