*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 3. nóvember 2013 10:29

Fá engan frest

Iðnaðarráðherra hafnaði ósk eigendanefndar um að fá frest til að klára uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur. Uppskiptingunni hefur margsinnis verið frestað áður.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur óskaði eftir frekari frest hjá iðnaðarráðherra til að ganga frá uppskiptingu fyrirtækisins en beiðninni var hafnað. Þetta staðfestir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þetta þarf að ganga í gegn fyrir áramót,“ segir Ragnheiður Elín en frestur Orkuveitunnar til að ganga frá uppskiptingunni samkvæmt raforkulögum rennur út um áramótin.

Fleiri farið sömu leið
Ragnheiður Elín bendir á að önnur fyrirtæki hafi farið í gegnum sama ferli og að Orkuveitan hafi síðast farið fram á árs frest. Það var fyrir tæpum tveimur árum en þá samþykkti Alþingi að gefa fyrirtækinu rúman frest til tveggja ára til að ganga frá sínum málum. „Þannig að þetta hefur alltaf legið fyrir. Þá hef ég heyrt frá fyrirtækinu sjálfu að þetta hefur verið í undirbúningi lögum samkvæmt,“ segir Ragnheiður Elín.

Til að skiptingin nái fram að ganga þarf fleira að koma til en ákvörðun af hendi eigenda Orkuveitunnar. Ráðherra þarf einnig að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum sem Orkuveitan starfar eftir. „Það er von á því. Slík frumvarp hefur verið í undirbúningi,“ segir Ragnheiður Elín. Hún segir einhver álitamál hafa komið til umræðu á vegum fjármálaráðuneytisins vegna skattalegra atriða. Slíkt verði tekið til skoðunar og tekið tillit til.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.