Sex af hverju tíu aðildafyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins hyggjast ekki leggja í umtalsverðar fjárfestingar eða endurbætur á næsta ári. 30% telja óvíst hvort farið verði í fjárfestingar og einungis 12% ætla í fjárfestingar eða endurbætur á næsta ári.

Þetta kemur fram í nýrri könnun samtakanna á fjárfestingaráformum fyrirtækjanna.

8-12% fyrirtækja í sjávarútvegi, iðnaði og verslun áforma fjárfestingar á árinu 2011 en 57-65% ætla ekki að gera svo. „Fjárfestingaáformin eru algengust í ferðaþjónustu þar sem 21% fyrirtækjanna hyggjast ráðast í fjárfestingar en 42% ekki og í fjármálaþjónustu hyggjast 16% fyrirtækjanna ráðast í fjárfestingar,“ segir í frétt á vef SA.

Meðal þeirra skýringa sem gefnar voru fyrir ástæðu frekari fjárfestinga voru að tryggja samkeppnishæfni, bæta þjónustu, mæta aukinni eftirspurn, að stöðnun þýði afturför, tækifæri á markaði og góð verkefnastaða. Alls gáfu 63 fyrirtæki skýringar á hvers vegna fyrirtækin ætla í frekari fjárfestingu.

336 fyrirtæki gáfu skýringa á hvers vegna ekki verður farið í umtalsverðar fjárfestingar á næsta ári. Um þriðjungur svarenda nefndi erfitt rekstrarumhverfi og slaka rekstarafkomu sem helstu ástæðuna. Tæplega fjórðungur sagði óvissu í rekstrarumhverfinu ástæðu fyrir að ekki verður ráðist fjárfestingar.

„Tæpur fjórðungur rakti skýringuna til óvissu í rekstrarumhverfinu og að viðbættri óvissu í málefnum sjávarútvegs töldu tæp 30% óvissu, sem að miklu leyti má rekja til stefnu stjórnvalda, meginástæðu þess að ekki verður ráðist í fjárfestingar á næsta ári. 8% töldu fjármagnskostnað eða takmarkaðan aðgang að fjármagni vera meginástæðuna, 7% efnahagsstöðu fyrirtækisins og einnig 7% röktu ástæðuna til skatta- eða atvinnustefnu stjórnvalda.“

Frétt SA má lesa hér .