*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Innlent 12. ágúst 2019 12:37

FA gagnrýnir frumvarp Kristjáns

Félag atvinnurekenda gagnrýnir að þrengt skuli að innflutningi á kjöti með ákvæðum draga að frumvarpi Kristjáns Þórs.

Ritstjórn
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Haraldur Guðjónsson

Félag atvinnurekenda gagnrýnir að þrengt skuli að innflutningi á kjöti með ákvæðum draga að frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um breytingu á úthlutun tollkvóta. Frá þessu er greint á vef Félags atvinnurekenda.

Markmið frumvarpsins eru sögð vera þau að stuðla að auknum ábata neytenda og efla samkeppni á markaði fyrir landbúnaðarvörur, en FA dregur í efa að þau markmið náist með þeim tillögum sem er að finna í drögunum.

Tillögunni lætt inn án skýringar

FA bendir þannig á að í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að hætt verði að gefa út svokallaðan opinn tollkvóta eða tímabundinn innflutningskvóta á lægri tollum fyrir nauta-, alifugla- og svínakjöt. Opnir tollkvótar hafa verið gefnir út þegar framboð frá innlendum framleiðendum þessara vara annar ekki eftirspurn. FA gagnrýnir að þessari tillögu sé lætt inn í frumvarpsdrögin án þess að hún sé rökstudd eða skýrð með nokkrum hætti í greinargerð.

„Þótt það sé ekki sagt beinum orðum, virðist ráðuneytið hér vera að hrinda í framkvæmd tillögu starfshóps ríkisins og hagsmunaaðila í innlendum landbúnaði og iðnaði, sem skipaður var í apríl 2016 af þáverandi landbúnaðarráðherra til að „bregðast við“ tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins. FA gagnrýndi harðlega bæði skipan og tillögur starfshópsins, enda fengu hvorki innflytjendur búvara né neytendur neina fulltrúa í honum,“ segir í umsögn FA. „Ein tillaga hópsins var að þeir tollfrjálsu innflutningskvótar, sem samið var um við Evrópusambandið, yrðu nýttir til að bregðast við skorti á kjöti á innanlandsmarkaði. FA ítrekar þá afstöðu, sem félagið setti fram á sínum tíma, að tilgangur tollfrjálsra innflutningskvóta er ekki að bregðast við skorti á innanlandsmarkaði, heldur að auka vöruúrval, efla samkeppni við innlendan landbúnað og lækka verð til neytenda.“