Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur lagt það til í nýju nefndaráliti að tollar verði felldir niður af snakki. Snakkið ber tolla sem nema 59% og Félag atvinnurekenda kallar ofurtolla, en FA hefur lengi barist fyrir afnámi snakktollsins.

Í nýjum pistli á heimasíðu FA fagnar félagið að tollurinn sé felldur niður en furðar sig á því afhverju tilteknar vörur, t.d. snakk sem framleitt er úr kartöflumjöli er undanskilið tollaafnámi. Snakk framleitt úr kartöflumjöli er í öðrum tollflokki og ber toll sem nemur 42%, en FA segir það vera fráleitlega háan toll.

„FA fagnar eindregið þessari tillögu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar viðurkennir að þessi tollur hafi verið alltof hár. Tollaniðurfellingin ætti að vera víðtækari, en með þessu er þó höggvið nýtt skarð í matartollmúrana. Þarna er viðurkennt að það er ekkert vit í að leggja ofurtolla á innflutning sem keppir ekki við neina innlenda framleiðslu. Með slíkri tollheimtu er ekki verið að vernda neitt heldur eingöngu að skaða neytendur, sem dirfast að leggja sér erlend matvæli til munns. Í því felst mikið gerræði.“

Í frumvarpinu er einnig felldir niður tollar á nokkrar tegundir af mjólkurlausum ís. FA hefur bent á að frostpinnar beri áfram mikla tolla.  „Nefndin segir að markmið breytinganna sé að „stuðla að því að þeir sem ekki neyta mjólkuríss af einhverjum ástæðum verði í sambærilegri stöðu og þeir sem neyta íss úr mjólkurafurðum“ Af hverju er þá til dæmis ís úr kókosmjólk ekki inni í upptalningunni á þeim vörum sem tollar verða felldir niður af?“ segir Ólafur.