Wow air og Icelandair fá hundruð milljóna greiðslur vegna nýrra flugleiða flugfélaganna frá erlendum flugmálayfirvöldum.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Icelandair og Wow air fái milljón dollara hvort, um 105 milljónir króna, frá flugmálayfirvöldum í Cleveland yfir tveggja ára tímabil til að aðstoða við markaðssetningu á flugleiðinni. Þá fái Wow air 800 þúsund dollara styrk, jafnvirði 85 milljóna króna, til markaðssetningar vegna nýrrar flugleiðar í St. Louis auk þess að flugvallagjöld gætu verið felld niður fyrir allt að 392 þúsund dollara, um 41 milljón króna. Wow air fær einnig 800 þúsund dollara yfir tveggja ára tímabil frá yfirvöldum vestanhafs vegna flugs til Pittsburgh.

Wow air hóf flug í september til Tel Aviv. Samkvæmt upplýsingum á vef ísraelska ferðamálaráðuneytisins áttu flugfélög sem hófu heilsárs áætlunarflug til Tel Aviv frá völdum áfangastöðum innan Evrópu rétt á 250 þúsund evrum fyrir hvert vikuflug upp að þremur. Þannig gátu flugfélög fengið allt að 750 þúsund evrur til markaðssetningar á flugleiðinni, jafnvirði 93 milljóna króna. Þegar Icelandair hóf flug á ný til Orlando árið 2014 eftir átta ára hlé samdi félagið um allt að 340 þúsund dollara hvatagreiðslur, um 36 milljónir króna. Upptalningin er langt frá því að vera tæmandi og ná hvatagreiðslurnar til fleiri flugleiða.

Eiga í samstarfi við fjölda flugvalla

„Þetta er alþekkt í flugbransanum en á ekki við um alla áfangastaði. Þetta er í raun markaðsstyrkur til að koma áfangastaðnum á framfæri,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir ekki óalgengt að flugvellir bjóði upp á svokölluð hvatakerfi til nýrra viðskiptavina með því að veita afslátt á lendingargjöldum á nýjum flugleiðum. „Jafnframt er algengt að flugvellir og ferðamálaráð ákveðinna svæða eða landa efni til markaðsog kynningarsamstarf við flugfélög og við höfum átt og eigum í slíku samstarfi við marga flugvelli,“ segir Guðjón.

Áfangastöðum í Bandaríkjunum fjölgað hratt

Flugfélögin hafa fjölgað verulega flugleiðum sínum milli Íslands og Bandaríkjanna að undanförnu. Wow air tilkynnti í lok ágúst að það hygðist fljúga til fjögurra nýrra áfangastaða í Bandaríkjunum: St. Louis, Cincinnati, Cleveland og Detroit. Fljótlega í kjölfarið tilkynnti Icelandair að það hygðist einnig fljúga til Cleveland. Wow air hóf flug til Pittsburgh í vor og Chicago í sumar. Icelandair hóf áætlanaflug til Philadelphia og Tampa á þessu ári. Flugfélögin tilkynntu svo í byrjun september að þau hygðust bæði fljúga til Dallas.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .