Fyrirtækið Facebook sem rekur samnefndan samfélagsmiðil hefur keypt fyrirtækið WhatsApp og tilheyrandi samskiptaforrit. Kaupverðið er 19 milljarðar dala, jafnvirði 2.145 milljarða íslenskra króna. Þetta eru ein dýrustu fyrirtækjakaup í net- og tæknigeiranum í rúman áratug eða síðan Time Warner og AOL runnu í eina sæng árið 2001, samkvæmt upplýsingum Bloomberg-fréttaveitunnar.

Hluthafar WhatsApp fá megnið af kaupverðinu eða 12 milljarða dala greidda út í hlutabréfum í Facebook og 4 milljarða í formi reiðufjár. Það sem út af stendur verður greitt með hlutabréfum í Facebook sem hluthafar WhatsApp mega ekki selja í tiltekinn tíma.

Notendur WhatsApp eru 450 milljónir talsins og bætast ein milljón notenda við á hverjum degi, að sögn Bloomberg.

Bloomberg segir Mark Zuckerberg, forstjóra og einn stofnenda Facebook, hafa leitað eftir því að bæta við þjónustu fyrirtækisins eftir að fyrirtækið keypti Instagram fyrir um 700 milljónir dala árið 2012.