Stjórnvöld í Portúgal ætla að fækka opinberum störfum um 30.000, fjölga vinnutímum í 40 úr 35 á viku og hækka eftirlaunaaldur um eitt ár, í 66. Með aðgerðunum reyna stjórnvöld að mæta kröfum neyðaraðstoðar frá 2011. Þá veittu ESB, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn Portúgal 78 milljarða neyðarlán.

Í frétt BBC um málið segir að atvinnuleysi í landinu mælist 18% og hefur aldrei verið hærra. Búist er við því að í ár dragist efnahagskerfið saman, þriðja árið í röð.

Forsætisráðherra landsins, Pedro Passos Coelho, talaði fyrir tillögum um niðurskurð og frekari breytingum. Í ávarpi á föstudag sagði hann að með aðgerðunum gætu Evrópuríkin ekki dregið í efa skuldbindingar Portúgals. Breytingarnar eiga að mestu leyti að koma til á næsta ári og er ætlað að spara 4,8 milljarða evra á þremur árum.