Breytingar voru gerðar á stjórn Íslandsbanka á hluthafafundi hans í gær og stjórnarmönnum í bankanum var fækkað úr níu í sjö. Samþykktum bankans var breytt til samræmis við þessa ákvörðun stjórnarinnar.

Daniel Levin hætti í stjórn bankans í lok ágúst síðastliðnum og í kjölfar breytinganna á stjórninni mun María E. Ingvadóttir einnig láta af stjórnarsetu. María hafði setið í stjórninni í tvö ár, frá því í september 2012.

Einnig var ákveðið að Margrét Kristmannsdóttir komi ný inn í varastjórn bankans. Því verða nú sjö einstaklingar í stjórn og sem fyrr þrír í varastjórn.