Aðspurður um færeyska efnahagskerfið segir Janus Petersen, forstjóri BankNordik, það í sæmilegu standi. Vissulega hafi Færeyingar fundið fyrir efnahagskreppunni sem riðið hefur yfir hinn vestræna heim en ekki lent jafn illa í henni og mörg önnur ríki.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Janus Petersen yfir stöðu BankNordik og öran vöxt bankans á sl. árum. Auk þess svarar hann spurningum um eðli bankastarfsemi, hvort BankNordik hafi hug á að opna útibú hér á landi og mýtuna um hinn skynsama færeyska viðskiptaman, svo fátt eitt sé nefnt.

Janus nefnir dæmi um atvinnugreinar sem standa sig vel um þessar mundir, s.s. fiskeldi (þorsk eldi) sem sé vaxandi iðnaður og skili góðri afkomu.

„Við höfum líka hagnast vel af olíuleit og erum núna með um 5 fyrirtæki sem hafa fjárfest í olíuleitarverkefnum. Þar bera Atlantic Petroleum og Faroe Petroleum höfuð og herðar yfir aðra,“ segir Janus.

Sumir sem eru beðnir um að lýsa færeyskum viðskiptamönnum lýsa þeim sem íhaldssömum, rólegum og stöðugum — einkum í samanburði við þá íslensku. Er eitthvað til í þessu eða er þetta mýta?

„Það má segja að það sé ólíkt viðhorf til viðskipta. Ég veit ekki hvort við erum mikið rólegri en e.t.v. erum við varkárari,“ segir Janus.

„Hugarfarið er líklega ólíkt því sem gerist á Íslandi en það getur verið bæði gott og slæmt. Eflaust eru þeir til sem telja að færeyskir viðskiptamenn séu of varkárir og að Íslendingar séu mun framsæknari. Það er mikið til í því. Ef þú ert hins vegar varkár gerir þú færri mistök. Þess vegna tel ég að það borgi sig að fara varlega og sýna aðgát í viðskiptum. En það þarf að hafa hvort tveggja, það þarf að fara varlega en vera framsækinn á sama tíma. Hlutverk okkar er að hámarka arð fyrir hluthafa en á sama tíma að tryggja öryggi í rekstri. Galdurinn er svo að finna leiðina til að gera hvort tveggja.“

Nánar er rætt við Janus í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.