Ákvörðun gerðardóms í desember, sem fól í sér að HS Orku væri skylt að standa við orkusölusamning til álvers í Helguvík með tilheyrandi skilmálum, hafði lítið áhrif á hlutabréfagengi móðurfélaga umræddra fyrirtækja, Alterra Power (móðurfélag HS Orku) og Century Aluminum (móðurfélag Norðuráls).

Augljóst er að framkvæmd við fyrstu áfanga álversins mun hafa veruleg áhrif á hagvöxt hér á landi. Fæstir gera þó ráð fyrir framkvæmdum í hagspám fyrir Ísland.

Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s gerði í fyrravor ráð fyrir framkvæmdunum þegar það birti lánshæfismat fyrir Ísland og í hagvaxtarspá Hagstofunnar undir lok síðasta árs var gert ráð fyrir framkvæmdum við fyrsta áfanga álversins á árinu 2013.

Í endurskoðaðri hagspá ASÍ fyrir árin 2012-14, sem birt var í vikunni, er ítrekað að ekki sé gert ráð fyrir álveri í Helguvík vegna þeirrar óvissu sem ríkir um verkefni. í Peningamálum Seðlabankans, sem einnig var birt í vikunni, er hvergi minnst á Helguvík en tekið er fram að lítið verði af stóriðjuframkvæmdum.

Greiningardeild Arion banka hefur ekki gert ráð fyrir framkvæmdum í sínum hagspám sl. tvö ár vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framkvæmdina.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ekkert fast í hendi með sölu á þeirri orku sem hægt væri að fá með virkjunum á Reykjanesi fari svo að ekki náist samningar á milli HS Orku og Norðuráls. Þó er rétt að hafa í huga að enn hefur ekki verið virkjað fyrir stórum hluta af þeirri orku þó svo að það sé stefna HS Orku að virkja á svæðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.