*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 3. desember 2020 11:48

Færri gjaldþrot raungerst en spáð var

Framkvæmdastjóri SAF segir að útlit sé fyrir færri gjaldþrot í ferðaþjónustunni á þessu ári en áður var óttast.

Ritstjórn
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Þröstur Njálsson

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) segir að útlit sé fyrir færri gjaldþrot hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum á þessu ári en óttast var. Gjaldþrotum kunni þó að fjölga í greininni á ný næsta haust. Þetta segir Jóhannes í samtali við Morgunblaðið.

Síðastliðið sumar var vonast til þess að ekki fleiri en 30-40% af fyrirtækjunum í íslenskri ferðaþjónustu yrðu gjaldþrota. Nú er farið að vonast eftir enn lægri prósentu. Gjaldþrotum hafi vissulega fjölgað en ekki hefur orðið sú fjölgun sem gert var ráð fyrir. Hins vegar hafi fyrirtæki þurft að skuldsetja sig til að lifa af og munu þau fá möguleika á að vinna úr þeim vanda næstu háönn.

„Það liggur þó ljóst fyrir að þeim mun ekki öllum takast það. Næsta haust gætum við því mögulega séð aðra hrinu gjaldþrota,“ segir Jóhannes. Bætir hann við að atvinnugreinin geti þjónustað um og yfir tvær milljónir ferðamanna en líklegast verði líklega færri en ein milljón ferðamanna á næsta ári. „Það gæti tekið fjögur ár að ná upp sama jafnvægi.“