Samkvæmt rannsókn Jordan Ellenberg, stærðfræði prófessors við University of Wisconsin, fyrir Wall Street Journal virðast fæstir lesendur bókar Piketty Capital in the 21st Century hafa náð lengra en á blaðsíðu 26.

Bók Thomas Piketty sem hefur verið mikið í umræðunni nýlega er 685 blaðsíður að lengd og því er ekki að undra að margir treysti sér ekki til að klára hana.

Jordan Ellenberg tók saman gögn frá Amazon um þær blaðsíður sem menn höfðu verið að undirstrika í Kindle og virðast flestir hafa gert þetta fyrir blaðsíðu 26 sem að samsvarar tveimur þriðjum af inngangi bókarinnar. Því virðist sem fæstir komist lengra en á blaðsíðu 26.

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa bókina má draga meginmál hennar saman í eina setningu: Skipting auðs hefur ekki verið eins ójöfn og um þessar mundir síðan í fyrra heimsstyrjöld og gæti þessi skipting verið ósjálfbær í framtíðinni.

Óðinn , pistlahöfundur Viðskiptablaðsins, skrifaði um bók Piketty í síðustu viku.