Sú mikla áhætta sem er falin í sjávarútvegi, pólitísk átök um kerfið og minni arðsemi leiðir fagfjárfesta hugsanlega að þeirri niðurstöðu að það sé heppilegra að setja fjármagn inn í fyrirtæki í öðrum starfsgreinum.

Þetta segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála sem nú er komið út .
Í ítarlegu viðtali er rætt við Heiðrúnu Lind um stöðu sjávarútvegsins hér á landi, samkeppnishæfni hans erlendis, orðræðu stjórnmálamanna um greinina, umræðu um afkomu hennar og áherslu á umhverfismál og nýsköpun svo eitthvað sé nefnt.

Hausthefti Þjóðmála 2020
Hausthefti Þjóðmála 2020
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Í viðtalinu er rifjað upp að tæp 40 ár séu liðin frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp og tæp 30 ár frá því að aflaheimildir urðu framseljanlegar.

Það sé því að koma upp önnur kynslóð sem hefur þá hugmynd að hið opinbera verði af miklum tekjum sem eigendur útgerðanna setji í eigin vasa. Þetta hafi greinilega sést í umræðum um nýja stjórnarskrá þar sem því var ítrekað haldið fram að „þjóðin“ gæti fengið meira í sinn hlut fyrir auðlindina.

„Rökræðan er stundum mjög grunn og við höfum reynt að bæta það sem við getum bætt með því að veita upplýsingar um það sem er að gerast í greininni,“ segir Heiðrún Lind þegar hún er spurð að því hvernig sjávarútvegsfyrirtækin ætli að bregðast við því sem kallað eru rangfærslur af þeim sem viðtalið tekur.

„Umræðan er oft á þann veg að það drjúpi smjör af hverju strái í sjávarútvegi, ofsagróði, milljarða arðgreiðslur, óeðlilegur vöxtur á eigið fé og þannig mætti áfram telja. Þetta er umræða sem við þurfum að taka og ég er alveg tilbúin til þess,“ segir Heiðrún Lind.

„Ef maður skoðar bara arðgreiðslurnar, til dæmis frá hruni til dagsins í dag, þá eru þær lægri úr sjávarútvegi en úr viðskiptahagkerfinu almennt sem hlutfall af hagnaði. Þær voru að meðaltali um 27% úr sjávarútvegi en 39% úr viðskiptahagkerfinu á tímabilinu 2010-2018. Vöxtur eigin fjár hefur verið meiri í viðskiptahagkerfinu en í sjávarútvegi á tímabilinu 2002-2018 og arðsemi eiginfjár í sjávarútvegi var 23% á tímabilinu 2012-2018.

Á tímabilinu 2016-2018 var arðsemi eiginfjár í sjávarútvegi aðeins 14%. Í áhættusömum atvinnurekstri, eins og sjávarútvegi, er ljóst að 14% arðsemi eigin fjár er beinlínis óviðunandi og raunar er 23% arðsemi eigin fjár ekki til að lyfta brún yfir. Fjármagnsfrek og áhættusöm atvinnugrein þarf að hafa sterkan eiginfjárgrunn. Aðeins þannig getur hún staðið af sér öldudalina sem alltaf koma við og við.“

Þá er Heiðrún Lind spurð að því hvort það  hefði þá í raun ekki borgað sig að fjárfesta í sjávarútvegi í samanburði við aðrar greinar.

„Í raun ekki. Einhver kynni þó að segja að þetta væri í lagi því að þeir sem væru að nýta auðlindir þjóðarinnar ættu ekki að hagnast meira en aðrir í viðskiptalífinu. Það er sjónarmið en það verður þá að fylgja sögunni að þeir hinir sömu greiða sérstakt gjald fyrir aðganginn og auðlindagjald greiða engir aðrir á Íslandi,“ svarar hún.

„Svo verður líka að hugsa þetta út frá þeim forsendum að sjávarútvegurinn mun þurfa á fjármagni að halda eins og aðrir í viðskiptalífinu. Ef það er samkeppni um fjármagn og sjávarútvegur skilar minni arðsemi en aðrir munum við ekki fá fjármagn inn í sjávarútveginn. Það má taka Brim sem dæmi, sem er eina útgerðarfélagið sem er skráð á markað.

Ef arðsemin í því fyrirtæki er alltaf lægri en arðsemi annarra fyrirtækja sem eru skráð á markað mun fjármagnið að líkindum leita annað. Hugsanlega er ég að stíga hér inn á hættusvæði, en það þarf að ræða allar hliðar máls, þar með talið fjármagnshliðina, og satt að segja hef ég ekki orðið vör við að íslenskir fagfjárfestar, til dæmis lífeyrissjóðir, hafi verið sérstaklega spenntir fyrir því að setja fjármagn inn í sjávarútveg.“

Spurð um það hvort að sú ákvörðun sé byggð á viðskiptalegum forsendum segist Heiðrún Lind ætla að leyfa fagfjárfestunum sjálfum að svara því.

„En ég held að þessi mikla áhætta sem er falin í sjávarútvegi, pólitísk átök um kerfið og minni arðsemi leiði fagfjárfesta hugsanlega að þeirri niðurstöðu að það sé heppilegra að setja fjármagn inn í fyrirtæki í öðrum starfsgreinum,“ bætir hún við.

Síðar í viðtalinu segir hún;

„Það er ólíklegt að fjárfestar nái að margfalda fjárfestingu í sjávarútvegi til skamms tíma. Sjávarútvegur er ekki eins og að spila í lottói. Við erum að veiða í samræmi við vísindalega ráðgjöf og það er ólíklegt að það verði einhver sprenging í því magni sem leyfilegt verður að veiða. Tekjur munu því ekki margfaldast í einu vetfangi.

Fagfjárfestar vita því að sjávarútvegsfyrirtæki verður ólíklega trompið í eignasafninu til skemmri tíma. Þess vegna þurfum við, eins og ég nefndi áður, að einblína á það hvernig við sköpum meiri verðmæti úr auðlindinni til lengri tíma. Þar ætti umræðan að vera og þar ættum við öll að vera í sama liði, sjávarútvegurinn, stjórnvöld og almenningur.“