Skilað hefur verið inn samrunatilkynningu vegna fyrirhugaðs samruna Fagkaupa og BG Fossbergs til Samkeppniseftirlitsins. BG Fossberg er móðurfélag sérverslunarinnar Fossbergs sem selur iðnaðarvörur og verkfæri.

Fossberg er í eigu Benedikts Jóhannssonar og Grettis Sigurðarsonar sem keyptu fyrirtækið árið 2006. Fram að sölunni hafði Fossberg verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá stofnun árið 1927. Fossberg rekur vélaverslun að Neshyli 3.

Um er að ræða þriðju yfirtöku Fagkaups í ár en samstæðan keypti nýlega Hagblikk, sem sérhæfir sig í sölu á efni og tækjum til loftræstikerfa og húsbygginga, og heildverslunina Ísleif Jónsson. Þrjú af nítján samrunamálum sem Samkeppniseftirlitið hefur tekið til meðferðar í ár eru vegna yfirtaka Fagkaupa. Samstæðan, sem á Vatn og veitur, Áltak, Sindra, S. Guðjónsson og Johan Rönning, keypti einnig félagið KH Vinnuföt í fyrra.