*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Erlent 3. janúar 2020 15:38

Fái ekki MAX vélar fyrr en í október

Ryanair fær hugsanlega ekki fyrstu 737 MAX flugvélarnar fyrr en í október.

Ritstjórn
Michael O’Leary, forstjóri Ryanair.
epa

Michael O’Leary, hinn skrautlegi forstjóri Ryanair, segir að hugsanlega fái flugfélagið ekki fyrstu Boeing 737 MAX flugvélarnar sínar afhentar fyrr en í október á þessu ári. Reuters greinir frá.

Flugvélarnar hafa verið kyrrsettar frá því í mars á síðasta ári eftir tvö mannskæð flugslys. O’Leary sagði í síðasta mánuði að allt eins geti orðið að flugfélagið fengi vélarnar ekki fyrir sumaráætlun sína á þessu ári. Ryanair pantaði alls 135 eintök af 737 MAX flugvélunum, en hefur ekki fengið neina afhenta. Flugfélagið átti upphaflega að fá 58 eintök af 737 MAX flugvélum inn í sumaráætlun sína en þeim hefur smám saman verið fækkað niður í 10. Nú segir O’Leary að hugsanlega fái Ryanair ekki nema fimm flugvélar fyrir sumarið og mögulega enga. Fyrstu vélarnar berist þá ekki fyrr en í október.

United Airlines sagði í síðasta mánuði að það búist ekki við flugvélunum fyrr en í júní, sem yrði lengsta tímabil sem bandarískt flugfélag tekur flugvélategund úr umferð.

Ekki liggur enn fyrir hvenær bandarísk flugmálayfirvöld gefa leyfi fyrir því að flugvélunum verði hleypt í loftið á ný. Endurbætur á flugvélunum hafa tekið mun lengri tíma en búist var við.

Stikkorð: Boeing Ryanair 737 MAX Michael O’Leary