Eigendur 1,6% hlutafjár í stoðtækjafyrirtækinu Össuri tóku valfrjálsu tilboði danska fjárfestingarsjóðsins William Demant Invest A/S í félagið. William Demant Invest hefur um skeið verið stærsti hluthafi Össurar með 39,58% eignarhlut. Eftir kaupin á félagið 41,2% hlut.

William Demant Invest lagði tilboðið fram þann 22. maí síðastliðinn. Gildistíminn hófst mánudaginn 9. júlí og lauk honum í gær.

Fram kemur í tilkynningu frá Össuri að hluthafar sem áttu 7.254.034 hluti hafi samþykkt tilboðið. Það hljóðaði upp á 202 íslenskar krónur á hlut eða 8,2 danskar á hlut. Samkvæmt því greiðir William Demant Invest 1.465 milljónir króna fyrir nýju hlutina. Eftir kaupin á William Demant Invest 186.852.245 hluti í Össuri eftir uppgjör tilboðsins. Það svarar til 41,2% hlutafjár í Össuri. Gengi hlutabréfa Össurar stendur nú í 202 krónum á hlut og nemur markaðsverðmæti hlutar Dananna Össuri því rúmum 37,7 milljörðum króna.

Gert er ráð fyrir að uppgjör tilboðsins fari fram á mánudag í næstu viku.

Engar fyrirætlanir um að gera breytingar á rekstri eða starfsemi Össurar og hefur William Demant Invest ekki í hyggju að afskrá félagið, að því er segir í tilkynningu.