Ljóst er að 10 af 19 stærstu bönkum Bandaríkjanna stóðust ekki nýlegt álagspróf bandaríska fjármálaráðuneytisins og munu þurfa að auka eigið fé sitt á fyrir 8. júní n.k.

Alls munu bankarnir þurfa að endurfjármagna sig um 74,6 milljarða dali en þar af þarf stærsti banki landsins, Bank of America alls 33,9 milljarða dali.

Eins og áður hefur verið greint frá bundu bæði fjárfestar og verðbréfamiðlarar vestanhafs vonir við það að niðurstöður álagsprófsins myndu gefa skýrari mynd af fjármálakrísunni sem nú ríkir, jafnvel þó sú mynd yrði dökk á að líta eins og nú virðist vera raunin fyrir suma bankana.

Viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar segir meginniðurstöðu álagasprófanna helst fela það í sér að bankakerfið vestanhafs þolir ekki frekari áföll en nú hafa þegar orðið. Hann bætir því þó við að allt útlit sé fyrir að bankarnir muni skila betri hagnaði í ár miðað við sama tíma í fyrra og ekkert bendi til þess að stór áföll muni koma yfir bankakerfið. Hins vegar þurfi menn að halda vel á spilunum og stíga varlega til jarðar.

Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði þegar niðurstöðurnar voru birtar í gærkvöldi að von ríkisstjórnarinnar væri sú að bankarnir gætu staðið undir hefðbundinni og eðlilegri bankastarfssemi áfram.

Mikil endurfjármögnunarþörf

Eins og fyrr segir mun Bank of America þurfa tæpa 34 milljarða dali til að uppfylla lágmarkskröfu um eigið fé. Þá mun Wells Fargo þurfa um 13,7 milljarða dali, Citigroup um 5,5 milljarða dali og Morgan Stanley um 1,8 milljarða dali.

Þá mun GMAC, fjármálafyrirtæki í eigu General Motors sem nýlega fékk viðskiptabankaleyfi, þurfa endurfjármögnun upp á 11,5 milljarða dali.

Sumir bankanna hafa þegar hafið endurfjármögnunarferli og flestir þeirra telja, samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs, að þeir nái að uppfylla kröfur um eigið fé með endurfjármögnun úr einkageiranum. Þannig telja flestir að ekki gerist þörf á frekari opinberum styrkjum.

Margir af helstu stjórnendum bankanna sögðust í gær hafa litlar áhyggjur af þróun mála og í raun þyrfti markaðurinn engar áhyggjur að hafa. Þeir bankar sem þurfa að endurfjármagna sig munu gera það ýmist með sölu eigna eð aukinni hlutabréfaútgáfu, sumir hvoru tveggja.

Ríkið tekur bankana ekki yfir, en samt...

Þeir 19 bankar sem undirgengust álagsprófið, sem framkvæmt var sameiginlega af fjármálaráðuneytinu og bandaríska seðlabankanum, telja til um 2/3 af öllu bankakerfinu þar vestra og eru með á sínum vegum yfir helming allra útlána í Bandaríkjunum.

Geithner sagði við fjölmiðla í gær að enginn bankanna væri í þeirri hættu að verða tekinn yfir af yfirvöldum og undir það tók Ben Bernanke, seðlabankastjóri, bankarnir þyrftu hins vegar að uppfylla kröfur um eigið fjár.

Ef bankarnir hins vegar ná ekki að endurfjármagna sig innan settra tímamarka er talið líklegt að yfirvöld veiti þeim neyðarlán, en með ströngum skilyrðum. Þannig munu stjórn og helstu stjórnendur slíkra fyrirtækja látnir taka pokann sinn og félögunum gert að breyta rekstri sínum eftir ýmsum leiðum. Reuters fréttastofan segir svo frá að þó svo að ríkið taki bankana ekki yfir þá muni það með neyðarláni hafa tögl og haldir í bankanum og stjórna honum úr fjarlægð.