Alþingi samþykkti í dag frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um virðisaukaskatt og vörugjöld. Var þannig samþykkt að vörugjöld af ýmsum raftækjum og stærri heimilistækjum falli niður um áramót, og einnig af bílavarahlutum, ýmsum byggingavörum og matvöru sem inniheldur sykur og sætuefni.

Birgir Bjarnason, formaður Félags atvinnurekenda, segir félagið fagna þessari niðurstöðu . „Við höfum áratugum saman barist fyrir afnámi vörugjaldanna, sem eru fáránleg, órökrétt og óréttlát skattheimta og hafa komið hart niður bæði á neytendum og fyrirtækjunum í landinu,“ segir Birgir.

Hann segir að þessi stóri áfangi í baráttu félagsins fyrir réttlátara rekstrarumhverfi fyrirtækja sé hvatning til að halda öðrum baráttumálum FA áfram á lofti. „Við þurfum að sýna viðlíka þrautseigju í öðrum málum til að ná þeim líka í gegn. Eitt af markmiðum okkar á til dæmis að vera að álagning tolla á innflutning sé undantekning, en ekki regla.“