Heildar­fjöldi far­þega Icelandair var um 366 þúsund í maí 2023, 16% fleiri en í maí í fyrra þegar far­þegar voru 316 þúsund. Sæta­fram­boð í maí jókst um 11% miðað við fyrra ár.
Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá fyrir­tækinu.

„Far­þegar í milli­landa­flugi voru 343 þúsund, 18% fleiri en í maí 2022, þegar 291 þúsund flugu með fé­laginu. Þar af voru 41% á leið til Ís­lands, 16% frá Ís­landi og 42% voru tengi­far­þegar. Stund­vísi í milli­landa­flugi var 75% sem er nokkuð undir væntingum og skýrist m.a. af ó­venju­skörpum lægðum í maí. Sæta­nýting var 80,7% og jókst hún um 6,6 prósentu­stig á milli ára,“ segir í til­kynningunni.

Fjöldi far­þega í innan­lands­flugi fækkaði hins vegar á sama tíma­bili um 3 þúsund. Far­þega­fjöldinn var um 23 þúsund, saman­borið við 26 þúsund í maí í fyrra.

Sæta­nýting var 76,6% í mánuðinum og stund­vísi var 85%, tölu­vert betri en í sama mánuði í fyrra. Fram­boð var minna en í maí í fyrra og skýrist það meðal annars af því að af­lýsa þurfti nokkrum fjölda flug­ferða vegna veðurs.

Frakt­flutningar jukust um 34% á milli ára, aðal­lega vegna aukningar í frakt­flugi yfir At­lants­hafið með til­komu tveggja Boeing 767 breið­þota í frakt­flota fé­lagsins. Seldir blokk­tímar í leigu­flugi voru 26% fleiri en í sama mánuði í fyrra.

„Sumarið lítur vel út og á sama tíma og við aukum um­svifin“

Frakt­flutningar jukust um 34% á milli ára, aðal­lega vegna aukningar í frakt­flugi yfir At­lants­hafið með til­komu tveggja Boeing 767 breið­þota í frakt­flota fé­lagsins. Seldir blokk­tímar í leigu­flugi voru 26% fleiri en í sama mánuði í fyrra.

„Við höldum á­fram að sjá góðan árangur með mikilli fjölgun far­þega á milli ára og sterkri tekju­myndun. Sumarið lítur vel út og á sama tíma og við aukum um­svifin með stærstu á­ætlun fé­lagsins hingað til er sæta­nýting með besta móti. Svo hröð upp­bygging starf­seminnar er af­rakstur þrot­lausrar vinnu starfs­fólks fé­lagsins í kjöl­far heims­far­aldursins. Í heild fljúgum við til 54 á­fanga­staða í ár og við höfum þegar hafið flug til Detroit og Prag sem eru nýir sumar­á­fanga­staðir í flug­á­ætlun okkar,“ segir Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, í til­kynningu.