Eik hefur keypt Turninn og fleiri fasteignir á Smáratorgi. Að auki kaupir Eik fasteignir á Akureyri. Kaupsamningur þessa efnis var undirritaður í dag, en kaupverð er ekki gefið upp. Heildarstærð fasteigna er rúmlega 62 þúsund fermetrar. Leigutakar eru alls um 75 talsins og meðal helstu leigutaka eru Rúmfatalagerinn, Deloitte, Alvogen,  Bónus, Nettó og fleiri.

Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um fjármögnun, samþykki hlutahafundar Eikar fasteignafélags hf., samþykki stjórnar beggja félaga, sem og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Fasteignir sem um ræðir í kaupsamningi eru m.a. Smáratorg 1, Smáratorg 3 og lóð að Smáratorgi 5 í Kópavogi auk Gleráreyra 1 og fasteigna við Dalsbraut 1 á Akureyri.

Eignasafn Eikar fasteignafélags hf. mun stækka um rúmlega 70% við kaupin. Í lok fyrsta ársfjórðungs 2013 námu fjárfestingareignir Eikar rúmlega 21 milljarði króna.  Eik fasteignafélag hf. sér mikil tækifæri í kaupum á eignum SMI ehf. m.a. með auknum samlegðaráhrifum og aukinni áhættudreifingu bæði hvað varðar eignasafn og leigutaka. Fasteignir sem um ræðir falla einnig vel inn í eignasafn Eikar.

Eik fasteignafélag hf. hyggst auka hlutafé til að fjármagna hluta kaupverðs, auk þess sem kaupin verða fjármögnuð með banka- og skuldabréfafjármögnun. Kaupin eru liður í áformum félagsins um stækkun og að endingu skráningu hlutafjár í Kauphöll.