Sala á notuðu íbúðahúsnæði dróst saman um 0,9% á milli mánaða í febrúar. Þetta er rétt undir væntingum greiningaraðila, að því er fram kemur í Morgunpósti IFS Greiningar. Engu að síður benda bandarískir fjármálasérfræðingar á að sölutölurnar séu með því best sem sést hafi eftir að fasteignabólan sprakk með látum og hrundi fjármálakreppuni af stað. Þeir telja því sölutölurnar benda til að jafnvægi sé að nást á þarlendum fasteignamarkaði.

Í netútgáfu bandaríska stórblaðsins The New York Times kemur fram að þótt fasteignaverð í Bandaríkjunum hafi verið að hækka nokkuð stöðugt síðastliðið hálft ár samhliða því sem nýbyggingum hafi fjölgað þá sé vart hægt að nota orðið sprengingu eða bólumyndun á fasteignamarkaði. Niðursveiflan hafi sett skarð í íbúða- og verktakageirann og eigi hann enn talsvert í land með að ná sínum fyrri styrk. Gert er ráð fyrir bata á markaðnum þegar dregur úr atvinnuleysi og kaupmáttur eykst vestanhafs.