Fasteignaverð hér á landi hækkaði um 0,7% milli mánaða í júlí, samkvæmt Hagvísum Hagstofunnar. Raunverð húsnæðis hefur nú lækkað um tæp 6,5%, miðað við sama tíma í fyrra. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu stóð nánast í stað í júlí, en hækkaði um tæplega 3,2% á landsbyggðinni.

„Hafa ber í huga að fasteignaverð á landsbyggðinni er töluvert sveiflukennt vegna lítillar veltu. Erfitt er að draga sterkar ályktanir af breytingum milli mánaða vegna samdráttar í veltu en þrátt fyrir að velta hafi aukist lítillega í júlí í kjölfar aðgerða ríkisstjórnarinnar og afnáms stimpilgjalda er velta enn mjög lág í sögulegu samhengi,“ segir í Vegvísi Landsbankans.

Fasteignaverð hafði fyrir júlí lækkað samfleytt í þrjá mánuði. Það hefur nú hækkað um 0,4% frá áramótum.

Tólf mánaða hækkun í júlí nemur 6,2%, en um áramót nam hækkun á ársgrundvelli rúmum 16%.

Greiningardeild Landsbankans á von á að fasteignaverð muni lækka um allt að 20% frá því toppnum var náð síðasta vetur og fram til fyrri hluta árs 2010.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.