Sé litið á tölur úr verðsjá Þjóðskrár Íslands um þróun fasteignaverðs í stærri bæjum (sveitarfélögum) má sjá að verð hækkaði mun minna á höfuðborgarsvæðinu en í stærri bæjum úti á landi á milli áranna 2017 og 2018. Hér er miðað við vegið meðaltal viðskipta með fjölbýli og sérbýli í þessum bæjum. Sama aðferð er viðhöfð við höfuðborgarsvæðið. Þessi aðferð er ekki sú sama og notuð er við mælingu Þjóðskrár á vísitölu íbúðaverðs fyrir höfuðborgarsvæðið og tölurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við þá vísitölu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans .

Miðað við þessa aðferð hækkaði verð í öllum bæjunum fjórum umtalsvert meira en á höfuðborgarsvæðinu milli áranna 2017 og 2018, þar af mest á Akranesi, eða um tæp 20%. Í öllum bæjunum fjórum var hækkunin yfir 10% á meðan hún var undir 4% á höfuðborgarsvæðinu, þannig að munurinn er nokkuð mikill.

Sé litið á þróunina til lengri tíma má sjá að talsvert hægði á verðhækkunum á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017 á meðan minna hægði á hækkunum í bæjunum fjórum. Sumstaðar hafa hækkanir verið verulegar á ýmsum tímum, t.d. í Reykjanesbæ á árinu 2017 og í Árborg 2016 og 2017 og á Akranesi 2017 og 2018. Árið 2017 sker sig nokkuð úr hvað höfuðborgarsvæðið varðar, en þá voru hækkanir þar mun meiri en hin árin.

Árleg meðalhækkun mest í Reykjanesbæ

Hækkanir á milli 3. og 4. ársfjórðungs í fyrra voru orðnar mun minni en breytingar milli 2017 og 2018. Þannig var um að ræða lækkun á verði á Akureyri, í Árborg og á höfuðborgarsvæðinu, en 5-6% hækkun á Akranesi og í Reykjanesbæ. Árleg meðalhækkun síðustu sex ára var hins vegar mest í Reykjanesbæ - 12,8% - og minnst á Akureyri, 8,6%. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalhækkunin 11,2% á þessu tímabili.

Þrátt fyrir miklar hækkanir utan höfuðborgarsvæðisins er fermetraverð þar enn mun hærra en gerist í stóru bæjunum fjórum. Á fjórða ársfjórðungi í fyrra var meðalfermetraverð fjölbýlis og sérbýlis miðað við viðskipti um 454 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu á meðan það var um 294 þús.kr. í Árborg þar sem það var lægst af þessum bæjum.

Sé fermetraverðið sett á vísitöluform miðað við 100 á höfuðborgarsvæðinu má sjá að verðið á Akureyri er um þrír fjórðu hlutar af verðinu á höfuðborgarsvæðinu og verðin í hinum bæjunum á bilinu 65-70% af höfuðborgarsvæðinu. Bilið á milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins hefur verið svipað í nokkur ár, en hinir bæirnir þrír hafa minnkað bilið nokkuð á síðustu árum.

Fermetraverð fjölbýlis hærra en sérbýlis

Eðli málsins samkvæmt er fermetraverð fjölbýlis hærra en á sérbýli í öllum bæjunum. Mestur er munurinn á Akranesi og á höfuðborgarsvæðinu, 15% og 12%. Munurinn er minnstur í Árborg, um 4%. Hér er einungis einn ársfjórðungur mældur þannig að tölurnar eru ekki nákvæmar.

Þessar tölur frá Þjóðskrá staðfesta þá mynd að verðþróun fasteigna hefur verið með svipuðum hætti í stærri bæjum og var á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum. Á síðasta ári virðist myndin hafa breyst með þeim hætti að hægt hefur meira á verðþróun á höfuðborgarsvæðinu en í bæjunum fjórum.