Arðsemi í byggingariðnaði fer senn að aukast og nýbyggingum að fjölga eftir hrun, að mati Greiningar Íslandsbanka.

Í Morgunkorni greiningardeildarinnar þar sem fjallað er um þróun byggingarkostnaðar og íbúðaverð kemur fram að hægt hafi á hækkun byggingarkostnaðar. Hún nemi nú 3,9% samanborið við 11,4% um síðustu áramót. Á sama tíma hafi vísitala íbúðaverðs hækkað um 7,3% og sé fasteignaverð því að hækka hraðar en byggingarkostnaður um þessar mundir. Ef miðað er við raunverðsþróun komi sömuleiðis í ljóst að verulega sé að draga saman með raunverðsþróun íbúðaverðs og byggingakostnaðar en íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi að raunvirði hækkað um 2,5% undanfarið ár.

Rifjað er upp að byggingariðnaðurinn hafi verið í miklum dvala frá hruni.

Bent er á að á síðasta ári var byrjað á 68 nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu en til samanburðar var byrjað á 419 íbúðum árið 2007. Þá voru samtals 347 íbúðir fullgerðar á síðasta ári á höfuðborgarsvæðinu en til samanburðar voru rúmlega 2.000 íbúðir fullgerðar á ári hverju ári á árunum 2005 til 2007.