Samkvæmt úttekt Global Property Guide hefur íbúðaverð á Íslandi fallið um 21,21% á þriðja ársfjórðungi borið sama við sama tímabil 2008 þegar íbúðaverðið hafði fallið um 8,95%. Er verðfallið á Íslandi það fjórða mesta í þeim 27 löndum sem úttektin nær til þegar tillit hefur verið tekið til verðbólgu í viðkomandi löndum.

Fasteignaverð hefur fallið á þriðja ársfjórðungi í 16 af 27 ríkjum sem úttekt GPG nær til. Verðfallið er lagmest í Lettlandi eða 59,70% á þriðja ársfjórðungi 2009. Þar á eftir koma Arabísku furstadæmin eða United Arab Emirates (UAE), með 48,05% verðfall. Búlgaría er í þriðja neðsta sæti með 28,66% verðfall og Ísland kemur svo í fjórða sæti með 21,21% verðfall. Þá kemur Rússland í fimmta neðsta sæti með 19,47%, Slóvakía í sjötta neðsta sæti með 15,28% verðfall, Thailand er í sjöunda neðsta sæti með 13,18%, Singapúr er í áttunda neðsta sæti með 10,96%, Bretland (Land Registry) er í níunda neðsta sæti með 10,02% og Bandaríkin (Case-Shiller) eru í tíunda neðsta sæti með 7,45% verðlækkun, en þar var talan á sama tímabili 2008 20,74%.

Þó Bandaríkin búi enn við verðlækkanir, er batinn þar þó einna mestur milli ára, eða úr –20,74 í –7,20. Það eru þó Ísraelsmenn sem tróna á toppnum með hreinar verðhækkanir upp á 10,15% á þriðja ársfjórðungi, en þar var verðrýrnun upp á 3,79% á sama tíma í fyrra. Í öðru sæti kemur Ástralía (verð í 8 helstu borgum) með 4,91% verðhækkun á þriðja ársfjórðungi 2009 og Sviss er í þriðja sæti með verðhækkanir upp á 4,28%.