Krónan og Hertex, sem er nytjamarkaðskeðja Hjálpræðishersins á Íslandi, hafa gert samkomulag um að setja upp fatakassa við valdar verslanir Krónunnar. Fatnaðurinn sem safnast í kassana verðurí kjölfarið seldur í nytjaverslun Hertex.

Allur ágóði af rekstrinum fer í starf Hjálpræðishersins. Meðal verkefna Hjálpræðishersins er að sinna jólahaldi fyrir þá sem hafa ekki tök á því að halda jólin sjálf, vinna meðal heimilislausra og að halda uppi súpueldhúsi.

„Sala fatnaðar og nytjamuna í Hertex er mikilvæg fyrir Hjálpræðisherinn. Samstarfið við Krónuna er því þýðingarmikill hlekkur í tekjuöflun auk þess sem gildi Krónunnar varðandi minnkun sóunar á matvælum og öðrum nytjavörum samræmist hugmyndafræði Hjálpræðishersins,“ er haft eftir Hjördísi Kristinsdóttur, foringja hjá Hjálpræðishernum í tilkynningu.

Fatakassarnir eru hluti af samfélagsstefnu Krónunnar um að styðja við gott málefni og lágmarka sóun.