Íslensku bönkunum var ekki viðbjargandi frá árinu 2007, ómögulegt hefði verið að minnka íslenska bankakerfið árið 2008 og flutningur á Icesave-reikningum Landsbankans í erlend dótturfélög var í raun óraunhæfur.

Þetta eru í grófu máli niðurstöður þeirra vitna sem nú þegar hafa komið fyrir Landsdóm vegna ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra. Vitnaleiðslur hafa nú staðið yfir frá því á mánudag og hér á síðunni má sjá þá sem hafa þegar borið vitni.

Spurningar bæði saksóknara og verjanda í málinu hafa mikið snúist um störf samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika, sem starfaði undir forystu Bolla Þórs Bollasonar, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, og möguleikana á því að flytja Icesave-reikningana yfir í erlend dótturfélög.

Þau vitni sem þegar hafa komið fram hafa lýst störfum samráðshópsins með ágætum með fáeinum undantekningum.

Algjör trúnaður

Samráðshópurinn tók til starfa eftir mini-krísuna svokölluðu árið 2006 en í raun hafði óformleg nefnd starfað frá árinu 2004. Það var þessi hópur sem vann drög að lögum sem í dag eru þekkt sem neyðarlögin. Uppkast að lögunum var fyrst skrifað árið 2006 en uppfært og kynnt á ný vorið 2008 þegar blikur voru á lofti.

Nánar er fjallað um Landsdómsmálið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.