Íslög, lögmannsstofa Steinars Þórs Guðgeirssonar, fékk 75 milljónir greiddar fyrir umsjón með starfsemi Lindarhvols frá apríl 2016 til ársloka 2017. Greiðslurnar námu 39 milljónum króna árið 2016 og 36 milljónum króna á síðasta ári. Að meðtöldum virðisaukaskatti námu greiðslurnar samtals yfir 90 milljónum króna.

Félagið Lindarhvoll var stofnað 28. apríl 2016 til að hafa umsjón með eignum sem féllu ríkinu í skaut vegna stöðugleikaframlaga föllnu bankanna. Stjórnarlaun Lindarhvols námu samtals 16,6 milljónum 2017 en 14,1 milljón árið 2016. Launin stjórnarformanns námu 450 þúsund krónum á mánuði og almennra stjórnarmanna námu 300 þúsund krónum á mánuði en stjórnarlaunin voru lækkuð um helming þann 2. október 2017. Þórhallur Arason, fyrrverandi skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu var formaður stjórnarinnar en aðrir stjórnarmenn voru Ása Ólafsdóttir og Haukur C . Benediktsson.

Alls nam rekstrarkostnaður Lindarhvols 48,7 milljónum króna árið 2017 og 56,5 milljónum króna árið 2016.

Óseldar eignir Lindarhvols um síðustu áramót voru færðar í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins upp í ófjármagnaðar skuldbindingar ríkisins við B-deildina. Í kjölfar þess var Lindarhvol slitið.