Samstarfssamningur Íbúðalánasjóðs og Félags fasteignasala var undirritaður 20. janúar. Með samningnum er öllum félagsmönnum Félags fasteignasala gert kleift að selja þær eignir Íbúðalánasjóðs sem eru til sölu. Félag fasteignasala sér um milligöngu milli Íbúðalánasjóðs og félagsmanna sinna vegna eignanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

„Með þessum samningi er ætlunin að skapa gagnsætt og opið ferli við sölu eigna Íbúðalánasjóðs. Mikið er lagt upp úr fagmennsku og traustum vinnubrögðum og settar eru skýrar vinnureglur milli Íbúðalánasjóðs og fasteignasala sem koma að sölu á eignum sjóðsins.

Samningur sem þessi hefur ekki verið gerður áður og vonast báðir aðilar til þess að hann verði til góðs fyrir alla þá sem hagsmuna eiga að gæta.“