Vatnsfyrirtæki Jón Ólafssonar nýtti sér fjárfestingarleið Seðlabankans með útgáfu á skuldabréfi í fyrradag upp á 231,6 milljónir króna. Skuldabréfið ber 10% óverðtryggða vexti og þarf ekki að greiða af því fyrr en eftir fimm ár.

Jón segir í samtali við Morgunblaðið fjárhæðina fara í rekstur Icelandic Water Holdings. Fyrirtækið framleiðir átappað vatn á flöskum í verksmiðju sinni í landi Hlíðarenda við Þorlákshöfn og selur víða um heim undir merkjum Icelandic Glacial.

Í blaðinu kemur fram að vatnsfyrirtækið hafi tapað 10 milljónum dala arið 2011. Það gerir tæpa 1,3 milljarða króna. Jón segir fyrirtækið standa ágætlega og bendir á að vatnssalan hafi aukist um hátt í 100% á milli ára í janúar. Þá er  bent á að á hluthafafundi Icelandic Water Holdings 21. desember í fyrra hafi hlutaféð verið lækkað úr 56 milljónum dala í 38 milljónir til jöfnunar á tapi. Hlutafé var á sama tíma breytt úr dölum í íslenskar krónur. Miðað við það það nemur hlutaféð tæpum 4,9 milljörðum króna. Á sama tíma var ákveðið að breyta formi fyrirtækisins úr einkahlutafélagi í hlutafélag til að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Breytingin er í samræmi við skilyrði Seðlabankans fyrir þátttöku í gjaldeyrisútboðum.

Jón á fjórðungshlut í Icelandic Water Holdings á móti syni sínum Kristján, bandaríska drykkjavörurisanum Anheuser Busch og suður-afrísku fyrirtækjasamsteypunni Bidvest.