*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 29. júlí 2021 07:03

Felldi niður 8 milljóna reikning Lúðvíks

Úrskurðarnefnd lögmanna lækkaði reikning vegna vinnu Lúðvíks Bergvinssonar við Guðmundar- og Geirfinnsmálin.

Jóhann Óli Eiðsson
Lúðvík Bergvinsson.
Haraldur Guðjónsson

Úrskurðarnefnd lögmanna lækkaði nýverið reikning Lúðvíks Bergvinssonar hæstaréttarlögmanns til erfingja Tryggva Rúnars Leifssonar fyrir vinnu Lúðvíks við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna. Lúðvík hafði gefið út reikning að fjárhæð 9.847 þúsund krónur, virðisaukaskattur meðtalinn, en eftir meðferð nefndarinnar standa 1.792 þúsund krónur eftir.

Í mars 2013 afhenti starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmál Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra, skýrslu um galla á rannsókn og málsmeðferð þessa frægasta sakamáls íslenskrar réttarsögu. Skömmu síðar hafði fjölskylda Tryggva Rúnars samband við Lúðvík og falaðist eftir því að hann tæki að sér hagsmunagæslu við endurupptöku sakamálsins.

Með úrskurðum endurupptökunefndar árið 2017 var fallist á að taka ákveðna þætti sakamálsins upp að nýju og þótti þóknun til Lúðvíks „hæfilega ákveðin“ 6,1 milljón króna fyrir nefndinni. Hið endurupptekna mál var dæmt að nýju í Hæstarétti haustið 2018 en þá flutti Jón Magnússon málið fyrir hönd erfingja Tryggva Rúnars. Ástæðan var sú að Lúðvík hafði þá ekki aflað sér réttinda til málflutnings fyrir réttinum. Rétt er að geta þess að Jóni voru dæmdar tæplega 9,7 milljónir króna í áfrýjunarkostnað í Hæstarétti.

Í kjölfar sýknu Hæstaréttar hóf Lúðvík samningaviðræður við ríkið um að bæta erfingjum Tryggva þann ómælanlega miska sem af málunum hlaust. Í maí 2019 lágu drög að samkomulagi fyrir en örfáum dögum síðar barst Lúðvík hins vegar bréf þess efnis að erfingjar Tryggva hefðu ákveðið að leita til annars lögmanns til að gæta hagsmuna þeirra í viðræðum við stjórnvöld.

Þá vaknaði aftur á móti sú spurning hvað skyldi gera með kostnað sem fallið hafði til. Áður hefur komið fram að endurupptökunefnd ákvað að þóknun Lúðvíks skyldi vera rúmar sex milljónir króna vegna vinnu hans fyrir nefndina. Samkvæmt tímaskýrslum Lúðvíks hafði hann hins vegar unnið í 488 klukkustundir að málinu. Með 23.500 króna tímagjaldi gerði það 14,2 milljónir, virðisaukaskattur meðtalinn. Við það bættust síðan 61,5 klukkustundir í samningaviðræður við stjórnvöld. Taldi Lúðvík að alltaf hefði staðið til að í kjölfar samninga við ríkið yrði gert upp við hann í leiðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.