Eignir Haga, sem seldar voru Ísborg ehf, og eignir Olís, sem Atlantsolía keypti – sem hluti skilyrða Samkeppniseftirlitsins fyrir samþykki samruna verslunarkeðjunnar og olíufélagsins – voru seldar á samanlagt 660 milljónir króna. Þetta kemur fram í skýringu við árshlutareikning félagsins, en ekki kemur fram nánar hvernig söluverðið skiptist.

Fram kemur einnig að eignirnar verði afhendar frá seinni hluta janúarmánaðar og fram í byrjun marsmánaðar. Í heild bókfærir hið nýja sameinaða félag 15 milljóna króna söluhagnað af eignunum. Samstæða Haga færir tap upp á 62 milljónir, en Olís bætir það upp og rúmlega það með 77 milljóna króna söluhagnaði.

Ísborg ehf, sem kaupir þrjár Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu af Högum, er í eigu Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sports Direct á Íslandi og annars eiganda Boxins, auk þess að vera sonur Ingibjargar Pálmadóttur, sem er einn stærsti hluthafi Haga.