Sendiherra Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum, Turki Al-Faisal, spáir, að olíuverð muni fara í nýjar, áður óþekktar hæðir, ef deilan um kjarnorkuáætlun leiðir til stríðs, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka og vitnar í fréttavef BBC.

?Nefndi hann að verðið geti allt að þrefaldast ef deilan heldur áfram að magnast og leiði til átaka. Íran er næst stærsti framleiðandi olíu innan OPEC og lega landsins við Hormez sund er mikilvæg," segir greiningardeildin og heimfærir verðhækkunina á bensínlítranum:

?Ef þessi hrakspá gengur eftir gæti bensínlítrinn hér á landi farið upp í allt 250 krónur en mikil fylgni er á milli bensín- og olíuverðs. Þar sem bensínsskatturinn er föst krónutala myndi bensínverð á Íslandi sem betur fer ekki þrefaldast en miðað við þreföldun færi bensínlítrinn upp í tæpar 400 krónur."

Vísitala neysluverðs myndi því óhjákvæmilega hækka. ?Vægi bensíns í vísitölu neysluverðs er 6,3% og 100% bensínverðshækkun myndi því leiða til 6,3% hækkunar vísitölu neysluverðs og þar með verðtryggðra skuldbindinga. Verðtryggðar skuldbindingar íslenskra heimila nema nú um 1.000 milljörðum króna og væri hækkunin vegna vísitöluáhrifa því um 60 milljarðar króna. Á sama tíma drægjust ráðstöfunartekjur heimilanna saman þar sem spurn eftir bensíni er tregbreytanleg," segir greiningardeildin.