Noel Lee, stofnandi fyrirtækisins Monster, hefur ákveðið að höfða mál gegn Dr. Dre og Jimmy Iovine, stofnendum fyrirtækisins Beats Electronics. BBC News greinir frá þessu.

Bæði fyrirtækin framleiða heyrnartól og er Beats einn fremsti framleiðandi heims á því sviði, en fyrirtækið var selt til Apple á síðasta ári fyrir meira en þrjá milljarða dala. Lee er fyrrum viðskiptafélagi þeirra Dr. Dre og Iovine og átti á sínum tíma hlut í Beats, en hann heldur því núna fram að þeir félagar hafi stolið tækni frá Monster áður en fyrirtækið var selt til Apple.

Monster og Beats hófu samstarf árið 2008 og átti Lee samkvæmt samkomulaginu 5% hlut í fyrirtækinu. Fram kemur í stefnu í málinu að Lee haldi því fram að uppgangur Beats-heyrnartólanna megi að miklu leyti þakka tækni frá Monster, og fyrirtækinu hafi verið bolað út á ósanngjarnan hátt fyrir söluna til Apple.

Hefði Lee enn átt 5% hlut í fyrirtækinu við söluna hefði hann fengið í sinn hlut um 150 milljónir dala, en það jafngildir tæpum 20 milljörðum íslenskra króna.